Djörf ályktun

Þetta er áhugaverð niðurstaða sem hann kemst að, þ.e. að nemendur af landsbyggðinni standi sig betur vegna þess að nemendahópurinn er fjölbreyttari. Ég verð að segja að mér finnst þetta mjög djörf ályktun. Mér detta í hug margar aðrar skýringar sem gætu legið að baki.

Meðaleinkun nemenda af landsbyggðinni er lægri úr samræmdum prófum. En er meðaleinkun þess hluta nemanda af landsbyggðinni sem skila sér í háskólanám lægri?

Nemendur sem búa á höfuðborgarsvæðinu geta sæmilega auðveldlega skráð sig í háskóla bara til að prófa. Þeir geta prófað og gáð hvort þeim líki námið og hætt og farið að gera eitthvað annað ef þeim líkar það ekki. Fórnarkostnaðurinn og fyrirhöfnin við þess að prófa háskólanám er ekki svo mikill.

Það töluvert meiri fórnarkostnaður og fyrirhöfn fyrir nemanda af landsbyggðinni að flytja til höfuðborgarsvæðisins (eða Bifrastar, Akureyrar, útlanda, eða ferðast alltaf lengri vegalengd í skólann), til þess að fara í háskóla og því má gera ráð fyrir að nemandi af landsbyggðinni telji sig vita nokkurnvegin hvað hann vill áður en hann fer í háskóla.

Hann talar um að nemendahópar út á landi séu fjölbreyttari hvað námsgetu varðar og að það sé jákvætt fyrir alla.
Ég verð að vera ósammála.
Hann talar um að góðir nemendur hífi þá slakari upp og slakari nemendur hafi hvetjandi áhrif á kennara þar sem þeir eru krefjandi.
Það á eflaust við í einhverjum tilvikum.
Ég trúi varla að það sé vandamál í námsgetulega séð einsleitari nemendahópum að þeir séu ekki nógu krefjandi fyrir kennarana.

Ég held að það hljóti líka að eiga oft við að slakari nemendur séu akkeri fyrir sterkari nemendur þegar kennslan er aðlöguð að slakari nemendum og þegar kennslan er aðlöguð að sterkari nemendum heltast þeir slakari úr lestinni.
Það var allavega þannig sem ég minnist barnaskólaáranna þegar maður neyddist til að vera í bekk í fjölbreyttum nemendahóp.

Ég er alls ekki á þeirri skoðun að skólar á landsbyggðinni séu slæmir skólar. Þeir eru vissulega svolítið öðruvísi, og því fylgja líklegast bæði kostir og gallar. Í háskóla man ég eftir mjög öguðum og vel undirbúnum nemendum sem komu úr minni framhaldsskólum af landsbyggðinni. Þessir nemendur höfðu verið hæstir eða meðal hæstu úr sínum framhaldsskólum og þeir stóðu u.þ.b. jafnvel að vígi og góðir nemendur úr MR, MH, MA og VÍ. Það hefur allavegana ekki aftrað þessum nemendum mikið að koma úr sínum skólum.

Ég man líka eftir að nemendur úr framhaldsskólum af landsbyggðinni töluðu um að það hefði verið ákveðin nánd skapast milli kennara og nemenda og að kennarnir hafi verið mjög aðgengilegir og gjarnan eytt tíma utan kennslustunda til að hjálpa nemendum ef þess var óskað.
Þegar ég var MH var svo sem líka alveg hægt að nálgast kennara utan kennslustunda (en þó á vinnutíma) og þeir voru flestir mjög hjálplegir og vingjarnlegir ef maður gerði það. Það var samt ekki mikil hefð fyrir því. Kennarar voru líka oftast með frekar marga nemendur í mörgum hópum og þá mynduðust ekki jafn mikil tengsl milli nemanda og kennara. Ég tók t.a.m. fimm íslenskuáfanga í MH og var aldrei með sama kennarann í neinum þeirra. Nær allir nemendur skólans þurftu að taka hið minnsta 5 íslenskuáfanga og því voru ansi margir íslenskukennarar starfandi við skólann. Það voru hinsvegar færri frönskukennarar í skólanum þar sem að einungis hluti nemanda valdi frönsku. Ég var þessvegna með sömu frönskukennarana oftar en einu sinni og þá kynntust nemendur og kennarar betur og það var mjög jákvætt (það hefði samt líklegast ekki verið jafn jákvætt ef kennararnir hefðu ekki verið svona skemmtilegir og jafnframt góðir í sínu fagi). Í minni skólum sem eru ekki með jafn marga kennara hljóta nemendur því að vera oftar með sömu kennarana þ.a.l. kynnast nemendur og kennarar betur og það held ég að hljóti að hafa mun fleiri kosti en galla.


mbl.is Er rétt að velja eftir einkunnunum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband